Flóttafólkið á baðinu

Jakob var í spreng þegar hann nálgaðist húsið. Hann bjó í stóru, ókláruðu kubbalaga húsi í hverfi þar sem önnur hver lóð stóð ennþá auð. Eftir að hafa keyrt jeppann inn í bílskúrinn var honum svo mikið mál að pissa að hann ákvað að nota baðherbergið á neðri hæðinni, þó það væri í raun ófrágengið og ennþá fullt af drasli eftir píparana sem voru að vinna í því þegar allt hrundi.

Hann stökk inn á baðherbergið, reif klósettsetuna upp og bunan var rétt byrjuð að renna þegar hann áttaði sig á því að hann var ekki einn inni á baðherberginu. Jakob hætti samt ekki að pissa. Hann leit á fólkið, sem húkti í stóra baðkarinu sem enn átti eftir að tengja. Það glumdi í vatninu í klósettinu þegar bunan streymdi ofan í en fólkið lét sem það tæki ekki eftir því.

Hjónaband Jakobs hafði farið í vaskinn þegar peningarnir hurfu og nú rétt náði hann að borga af húsinu um hver mánaðamót en átti síðan ekkert eftir til að halda áfram að vinna í því. Hann bjó á efri hæðinni, notaði þó bara hjónaherbergið, eldhúsið og aukaherbergið þar sem hann eyddi flestum sínum stundum utan vinnunnar heima, húkandi yfir tölvuskjánum. Fólkið hefði þess vegna getað hafa verið þarna í nokkrar vikur. Þau litu hálf-aumingjalega út, rauð og þrútin í kringum augun eins og þau væru nýhætt að gráta. Þau virtust hrædd, vör um sig eins og fuglar sem heyra í kattabjöllu. Hann kláraði að pissa, gekk út og lokaði á eftir sér.

Ætti hann að hringja á lögguna? Hann hugsaði málið á meðan hann gekk upp á efri hæðina. Úr stofunni var hann með útsýni yfir sjóinn og Reykjavík, í gegnum risastóran glugga sem þótti flottur þegar húsið var hannað en var bara pirrandi svona gardínulaus. Jakob gekk að ísskápnum og tók þaðan pizzu frá deginum áður og hitaði í örbylgjunni. Ætli fólkið á baðinu sé svangt?, hugsaði hann. Ætti ég að gefa þeim með mér? Hann velti þessu aðeins fyrir sér á meðan hann horfði á fréttirnar en gleymdi þeim milli frétta af vísítöluhækkunum og eignum Íbúðalánasjóðs í Borganesi. Hann kíkti á netið og las síðan í bók uppi í rúmi áður en hann fór að sofa. Hann bylti sér í rúminu áður en hann sofnaði, það var eitthvað sem truflaði hann. Og af hverju höfðu þau endilega þurft að kaupa svona stórt rúm, þau höfðu bara verið tvö og þetta rúm var nógu stórt fyrir heila fjölskyldu. Honum fannst hann aldrei vita almennilega hvernig hann átti að liggja í því.

Morguninn eftir fékk hann sér boost með jarðaberjum, bönunum, goji-berjum og chia-fræjum eins og venjulega til að drekka í bílnum á leiðinni í vinnuna. Hann gekk niður stigann og leit inn á baðherbergið á meðan hann sötraði boostið. Fólkið var enn þarna. Það hafði búið um sig í baðkarinu, með handklæði bæði fyrir kodda og ábreiðu. Ljósið sem barst inn um baðherbergisgluggann fyrir ofan baðkarið, langa mjóa gluggaræmu ofarlega á ómáluðum veggnum, var óvenjulegt og hann heyrði í þyrlu fyrir utan. Hann vildi ekki trufla þau, var eiginlega bara að gá hvort þau væru ekki farin, þannig að hann lokaði aftur án þess að yrða á þau og fór í vinnuna.

“Það er fólk inni á baðherberginu mínu,” sagði hann í hádeginu. Þau sátu nokkur úr vinnunni saman á veitingastað í miðbænum og vandræðaleg þögn hafði legið þungt yfir borðinu í smátíma.

“Hvað meinarðu? Innbrotsþjófar?” spurði Ester og setti upp í sig kúpta gaffalfylli af risotto.

“Nei. Bara eitthvað fólk. Ég held að þau hafi sofið í baðkarinu í nótt.”

“Hústökufólk þá?”

“Nei nei, þau eru ekki þannig. Þau segja ekki neitt, horfa bara á mig eins og þau séu að bíða eftir að ég geri eitthvað.” Jakob fékk sér sopa af hvítvíni. “Þau minna mig svolítið á fólkið sem maður sér í fréttunum, svona flóttafólk þið vitið, sem býr í tjöldum í einhverjum búðum og krakkarnir eru að spila fótbolta í moldinni.”

“Og hvað, vilja þau eitthvað?”

“Ég veit það ekki, ég talaði ekkert við þau.”

“Hvað er þetta Jakob, auðvitað hringirðu á lögguna og lætur fjarlægja þetta fólk áður en það stelur öllu úr húsinu.”

“Já. Ætli það sé ekki best.” Honum var svosem sama um flest í húsinu. Það var fullt af rándýrum og óþægilegum húsgögnum sem hann hafði aldrei langað í. Í eldhúsinu voru tæki og tól sem hann notaði ekki, öll frá einhverjum fínum merkjum.

“Ég er að segja þér það,” sagði Þrándur, týpan sem virtist vita hvernig best væri að gera allt og var ófeiminn við að segja fólki það. “Mágur minn leyfði skyldfólki að gista í gestaherberginu sínu heilt sumar og það endaði bara með erjum og látum. Best að vera ekkert að hleypa svona fólki inn á sig.”

“Nei, það er rétt,” sagði Jakob og stakk upp í sig öðrum bita af fiskrétti sem honum þótti samanstanda af fulllitlum fiski en þeim mun meira af bragðlausu fíneríi með, einhverju grænmeti sem hann kannaðist ekki við og tveimur næfurþunnum kálblöðum. Furðulegt hvað maður fær orðið lítinn mat fyrir peninginn. Helvítis túristar að keyra allt verðlagið upp.

Fólkið var ennþá þarna þegar hann kom heim, hjúfraði sig saman í baðkarinu, eins og þau þyrðu ekki að stíga á gólfið. Konan hélt ungabarni að sér og ruggaði sér eins og til að róa það. Maðurinn hélt utan um dreng sem gæti verið fimm eða sex ára – Jakob var ekki sérlega góður að geta sér til um aldur barna – og stelpu sem var aðeins eldri. Stelpan hafði verið að gráta og Jakob sá að það blæddi úr sári á enni stráksins. Öll voru þau með dökkt hár sem grátt ryk var í og brún augu. Jakob giskaði á að þau væru frá mið-austurlöndum. Hvað skyldu þau vera að gera inni á baðinu hans? Þá heyrði hann drunur fyrir utan og fólkið í baðinu hrökk við, maðurinn dró börnin nær sér og konan ruggaði sér af meiri ákefð. Jakob lokaði dyrunum á þau og fór út til að gá hvaða læti þetta hefðu verið. Úti var ekkert að sjá, bara friðsælt sumarkvöldið. Nokkrir mávar svifu um loftið í átt að sjónum. Neðar í götunni var strákur að hjóla. Jakob fór aftur inn og fór upp og pantaði sér að borða. Ætli þau vilji eitthvað að borða? hugsaði hann. Nei annars, best að sleppa því, annars gæti hann setið uppi með fólkið í lengri tíma.

Fólkið var ennþá þarna morguninn eftir. Jakob fór með vatn til þeirra; þau virtust eitthvað feimin við að nota vaskinn og voru eflaust orðin þyrst. Maðurinn þáði vatnsflöskuna og kinkaði kolli að Jakobi til að þakka fyrir sig. Aftur heyrði Jakob drunur fyrir utan og fólkið hrökk við. Síðan heyrðist svipað hljóð og í vélbyssum í fréttunum. Hvað ætli þetta gæti verið? Strákurinn fór að gráta hljóðlaust en Jakobi fannst það óþægilegt þannig að hann lokaði dyrunum. Hann var farinn að kvíða helginni. Vera fólksins truflaði hann ekki mikið en þó aðeins meira þegar hann var heima. Hann var ekki með neitt planað fyrir helgina nema einmitt að vera heima og reyna hugsa ekki um vinnuna. Það gæti reynst erfitt ef fólkið yrði ennþá inni á baðinu hans. Hann var auðvitað með annað baðherbergi uppi en það var kannski ekki aðalmálið. Úti var ekki að sjá hvað olli drununum, en honum fannst aftur eins og ljósið hérna væri öðruvísi en það sem hann sá út um baðherbergisgluggann. Glerið var sandblásið þannig að það sást ekki alveg út um það en samt var eitthvað skrýtið við ljósið, eitthvað sem hann náði ekki alveg að átta sig á.

“Ertu búinn að losa þig við þetta fólk?” spurði vinnufélagi í lyftunni daginn eftir. Hann hélt á kaffibolla og var að fletta í gegnum Facebook í símanum og leit ekki á Jakob.

“Hvað, hvernig fréttir þú af fólkinu?” spurði Jakob.

“Það var verið að tala um þetta í póker í gærkvöldi, að það væri eitthvað flóttalið inni á baðherberginu hjá þér.”

“Þau eru á baðinu niðri, ég nota það ekkert.”

“Þannig,” sagði hann áhugalaus og fékk sér sopa af kaffinu. “Gengur samt ekkert að hafa þetta lið svona inná sér.”

“Ætti ég kannski að hjálpa þeim?”

“Hjálpa þeim? Hjálpa þeim hvernig?”

“Æji, nei. Ekkert.” Lyftudyrnar opnuðust og við tók enn einn vinnudagurinn. Jakob steig út og vonaði að vinnufélaganum fyndist hann ekki vera hallærislegur.

Hann ákvað að reka fólkið út þegar hann kæmi heim. Hann hugsaði þetta vel á meðan hann skrifaði skýrslur sem eflaust yrðu ekki lesnar og á fundi þar sem mikið var talað en ekkert ákveðið samdi hann stutta ræðu í huganum sem hann skyldi flytja þegar hann kæmi heim. Kurteis en ákveðin ræða þar sem hans sýn á veru þeirra kæmi fram. En síðan þegar hann kom heim, lagði bílnum og steig út langaði hann eiginlega bara að panta pizzu og horfa aðeins á sjónvarpið. Hann opnaði dyrnar inn á baðherbergið, svona rétt til að gá hvort fólkið væri kannski farið sjálft en þarna var það, vesældarlegt og samanhniprað í baðkarinu. Nú virtist eitthvað vera að brenna úti þegar litið var út um gluggann, og rétt þegar Jakob var að loka dyrunum heyrði hann í mönnum öskra fyrir utan, og síðan eins og heil fylking manna í þungum skóm hlypi framhjá. Hann pantaði sér pizzu með þistilhjörtum, ólífum og pepperoni og leigði mynd í gegnum VOD-ið en hún var leiðinleg og hann hætti að horfa þegar hún var hálfnuð. Hann fróaði sér yfir klámi í tölvunni, tvær stelpur og einn kall, og síðan fór hann að sofa.

Hann vaknaði um miðja nótt við rosaleg læti, allt húsið lék á reiðiskjálfi og hann stökk framúr. Einhvern veginn vissi hann að þetta hefði komið frá baðherberginu niðri og hann fór í silkináttsloppinn sinn og gekk niður stigann. Hann opnaði inn á bað og sá að einn veggurinn var mölbrotinn, þar var nú risahola og allt fullt af ryki og reyk og brunalykt en þó enginn eldur. Konan grét í hljóði og hélt um barnið. Hún sýndi Jakobi það, lyfti því að honum þannig að hann sá hvar blæddi úr því og það virtist fölt. Nú var nóg komið. “Út með ykkur!” öskraði hann á þau og benti á gatið í veggnum. “Út!”

Nú þegar rykið var að setjast sá hann að hinum megin við gatið í veggnum var ekki Reykjavík heldur önnur borg, þéttbyggð borg með ljósbrúnum húsum. Mörg voru að hruni komin vegna sprenginga og inn á milli mátti sjá hermenn með riffla. Þeir hlupu á milli bygginganna í hópum og skimuðu um. Einn þeirra stoppaði augnablik, miðaði út í bláinn og skaut. “Út með ykkur,” sagði Jakob aftur. “Sjáiði ekki hvernig þið eruð búin að fara með baðherbergið mitt?”

Þau stóðu upp og litu á Jakob, öll von dauð í augum þeirra. Strákurinn og stelpan litu á föður sinn eins og þau biðu þess að hann segði eitthvað. Hann opnaði munninn og sagði eitthvað við Jakob sem hann heyrði ekki alveg. Hann tók síðan fastar um börnin og leiddi þau út um gatið á veggnum, út í borgina sem beið þeirra. Þegar þau fóru lokaði Jakob aftur og fór upp. Hann var alltof æstur til að fara strax aftur að sofa þannig að hann kláraði myndina sem hann hafði leigt. Seinni hlutinn var allt í lagi.

*Eftirmáli*

Sagan hér að ofan er skrifuð haustið 2014, og þá er ég með Gaza í huga. Ekki grunaði mig þó að ári seinna yrði mesti straumur flóttamanna í tugi ára til Evrópu og margar virðast ríkisstjórnirnar vera eins og Jakob í sögunni, en það þurfið þið ekki að vera.

Vinsamlegast verið betra fólk en Jakob, og gefið til góðgerðamála. Ykkur að segja fékk ég greiddar 25,000 krónur fyrir söguna og af þeim gaf ég 12,500 til aðstoðar við flóttafólk, upphæð sem Google jafnaði með mótframlagi.

Hér fyrir neðan getur þú gefið til einhverra þeirra stofnanna sem eru að aðstoða flóttafólk frá Sýrlandi, bæði í Evrópu og í flóttamannabúðum í Líbanon, Jordaníu og víðar.

Photo

Doctors Without Borders

Providing refugees with everything from psychological care to lifesaving nutrition, including setting up hospitals in refugee camps, helping women give birth safely, and providing access to safe drinking water.

Donate

Photo

International Rescue Committee

Providing humanitarian relief for refugees as they reach the shores of Greece and in Afghanistan, Syria, and surrounding countries, as well as resettling thousands of refugees every year to the United States.

Donate

Photo

Save the Children

Working to keep refugee children safe and providing life-sustaining food, shelter kits, and supplies to keep families healthy.

Donate

Photo

UN High Commissioner for Refugees

Providing Syrian refugees with lifesaving assistance such as protection, shelter, food, water, and medical care and setting up reception centers where refugees can be registered.

Donate

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.