Svar við bréfi Helgu (leikdómur)

Svar við bréfi Helgu
Svar við bréfi Helgu
Sú leikhússýning sem eflaust verður ein sú umtalaðasta og best sótta þetta vorið er Svar við bréfi Helgu, unnin upp úr samnefndri bók. Ég er nýbúinn á námskeiði hjá Endurmenntun HÍ um það hvernig þessi sýning var unnin, og er því alveg næstum því innanbúðar. Ólafur Egill Egilsson kom og talaði um það hvernig hann vann leikgerðina upp úr bókinni, við fórum á æfingu, síðan talaði Bergsveinn um það hvernig ferlið við að skrifa bókina var; hvaðan hann sótti efnivið og innblástur. Námskeiðið endaði síðan með lokaæfingunni í Borgarleikhúsinu á miðvikudaginn.

Á meðan á námskeiðinu stóð fannst mér ég heyra og sjá minnst á þetta leikrit út um allt; í útvarpi, sjónvarpi og í blöðunum. En það er víst þannig, ef maður er með eitthvað í huganum þá finnst manni það vera út um allt.

Bókin fannst mér fín, þó ekki alveg það meistaraverk sem af var látið. Námskeiðið sátu aðallega eldri konur sem greinilega voru mjög mikið hrifnar af bókinni. Mögulega er ég bara ekki á réttu tímabili í lífinu til að bókin tali til mín. En hún er afar vel skrifuð og skemmtilega fljótlesin. Það var gaman og fróðlegt að hlusta á Bergsvein ræða vinnuna við að skrifa bókina og það sem kom mér mest á óvart er hversu lengi hann var að skrifa hana; um tíu ár með ekki lengri bók.

En þá að sýningunni. Eftir að hafa hlustað á rithöfund og höfund leikgerðar ræða dramatík, átök og gamla tímann vs nýja tímann var komið að sjálfu leikritinu. Eftirvæntingin var auðvitað mikil. Sýningin er flott, og þeir sem höfðu gaman af bókinni verða eflaust flestir vel sáttir. En hún er ekkert meistaraverk. Ég veit ekki hvað fólki sem fer á þetta án þessa að hafa lesið bókina á eftir að finnast. Helst finnst mér leikmyndin of dimm og niðurdrepandi; það er hvergi lit að finna á sviðinu, sem sjálft lítur út eins og veggur á eyðibýli. Föt leikara eru litlaus, en annars góð (þetta heita víst búningar). Leikararnir standa sig allir mjög vel, það er helst að fólk kvarti undan því að Ilmur sé fullgrönn í hlutverk Helgu (sem er samt eiginlega ekki umkvörtunarefni). Þröstur er sérstaklega góður sem Bjarni, það er eins og hlutverkið hafi verið skrifað fyrir hann. Hilmir hefði líklega verið of “sætur” og Ingvar mögulega of grófur.

Mér fannst þó sterkustu setningar bókarinnar og dramatískustu augnablikin ekki alveg nóga skýr eða sterk í leikritinu sjálfu. Ef dæma á Svar við bréfi Helgu sem leikrit-eftir-bókinni (semsagt fyrir fólk sem fer að sjá bókina á sviði), þá fær það þrjár og hálfa stjörnu. Ef dæma á það sem stakt verk, sjálfstætt og ótengt bókinni (semsagt fyrir fólk sem fer að sjá leikrit en er sama um bókina), þá fær það þrjár stjörnur.